Frá og með 1. júní verður hægt að fá eitt samræmt evrópskt einkaleyfi á uppfinningum sem gilda mun í öllum þeim 17 Evrópusambandsríkjum sem taka þátt í samstarfinu. Ísland stendur utan nýja kerfisins en verður áfram þátttakandi í samstarfi um evrópsk einkaleyfi á vegum Evrópsku einkaleyfastofunnar (EPO) ásamt mörgum öðrum ríkjum, innan og utan Evrópusambandsins. Því kerfi verður viðhaldið áfram, samhliða nýja kerfinu.
Meginbreytingarnar felast í því að ekki mun þurfa að fullgilda nýju einkaleyfin í hverju landi fyrir sig, aðeins þarf að greiða eitt árgjald og ekki þarf að reka mál vegna þeirra í mörgum ríkjum samtímis með hugsanlega ólíkum niðurstöðum. Allt að 25 ríki Evrópusambandsins munu taka þátt kerfinu í nánustu framtíð.
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, segir að eitt samræmt evrópskt einkaleyfi marki mikil tímamót í evrópskri hugverkavernd. „Nú er þetta loksins að verða að veruleika og fyrir íslenska aðila sem hyggjast sækja um einkaleyfi á uppfinningum sínum í Evrópu má gera ráð fyrir að ferlið verði nú bæði einfaldara og ódýrara.“
Comments