top of page

Bætt lýðheilsa með heilsu- og líftækni

Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (1948)


Lýðheilsa felur í sér markvissar aðgerðir hins opinbera og annarra sem miða að því að bæta heilsu, líðan og lífsgæði þjóða og þjóðfélagshópa.

WHO, Health promotion glossary (1998)


Á nýlegum morgunfundi Heilsutækniklasans 11. janúar var lýðheilsa til umræðu og fengum við til okkar fulltrúa frá lýðheilsusviði embættis landlæknis og aðildarfélaga okkar úr einka- og sprotageiranum sem vinna beint og óbeint að bættri lýðheilsu. Í spjallborði sátu fulltrúar frá Mín líðan, Proency, Beanfee og Florealis.


Hamingja og vellíðan í lífi og starfi er þjóðhagslega mikilvæg en samkvæmt HM Treasury's Green book, þá er 1 stig í hamingju metið á 13,000 GBP á mann á ári eða rúmlega 2 milljónir íslenskra króna. Hamingja Íslendinga mælist árið 2021 sem 56,8% (hlutfall fullorðinna sem metur hamingju sína a.m.k. 8 á skalanum 1-10).


Embætti landlæknis mælir reglulega hamingju sem og aðra þætti lýðheilsu og er mikið magn tölfræðiupplýsinga aðgengilegt á heimasíðu embættisins. Embætti landlæknis birtir lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum og vísar einnig á lýðheilsuvísa Evrópu-sambandsins og Norðulandaþjóða til samanburðar. "Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í sínu umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna þannig að þau geti unnið saman að því að bæta heilsu og líðan." Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar og áhrifaþætti þeirra.


Við berum okkur gjarnan saman við önnur lönd en þurfum einnig að bera saman svæði á Íslandi, en svæðisbundinn munur á heilsu er þekktur víða um heim. Betur má gera í að fylgjast með stöðu mála hér á landi. Heilsutækni og stafræn fjarheilbrigðisþjónusta kemur sterk inn til að vinna gegn svæðisbundnum mun á heilsu. Sömuleiðis líftæknilausnir eins og viðurkennd jurtalyf í lausasölu sem nálgast má án lyfseðils og geta virkað sem fyrirbyggjandi áður en vandamál verður þannig að læknisskoðunar og jafnvel sýklalyfja sé þörf.
Comments


bottom of page